Uppröðun húsgagna, hreinlæti og framsetning skiptir meira máli en margan myndi gruna. Því eru hér sett fram nokkur einföld ráð til að gera eignina þína meira aðlaðandi fyrir sölu.

1. Fyrsta sýn

Það fyrsta sem mögulegir kaupendur sjá er eftir atvikum inngangurinn, stigagangurinn eða garðurinn. Því er mikilvægt að huga að því að aðkoman sé eins og best verður á kosið. Ef um íbúð í stigagangi er að ræða gæti verið ráðlagt að ryksuga ganginn og lofta vel út. Ef gengið er beint inn í húsið eða íbúðina er mikilvægt að hafa sem snyrtilegast, henda til dæmis gömlum garðhúsgögnum sem hætt er að nota. Yfirfara útiljós og setja nýjar perur ef þarf.

2. Losaðu þig við óþarfa hluti

Með því að fara yfir hillur og skápa, losa sig við óþarfa púða, gömul teppi og skrautmuni er hægt að gera eignina mun hreinlegri og láta rými líta út fyrir að vera stærri. Þú ert í rauninni að slá tvær flugur í einu höggi því þú ert að losa þig við hluti sem þú ætlar ekki að flytja með þér.

3. Hafðu sem minnst uppi á borðum

Þetta á bæði við um eldhúsbekkinn og aðra fleti í húsinu. Settu heimilistæki eins og brauðrist, hrærivél og kaffivél inn í skáp eða ofan í skúffu og þurrkaðu yfir alla fleti með rakri tusku.

4. Hafðu stílhrein handklæði og endurnýjaðu sturtuhengið

Ótrúlegt en satt þá getur þetta haft mikil áhrif. Sérstaklega á baðherbergjum þar sem handklæði eru á krókum eða vel sýnileg. Eins með sturtuhengið ef það er til staðar. Stílhreint, hreint sturtuhengi getur skipt sköpum fyrir baðherbergisrýmið. Ef það er sturtugler er mikilvægt að þrífa það mjög vel.

5. Leitastu við að láta rýmin virka sem stærst

Ef þú ert með marga stóla, óþarfa hillur, stóra standlampa eða hluti sem loka rýminu má telja álitlegt að endurraða hlutunum og jafnvel koma þeim fyrir inni í geymslu/bílskúr eða heima hjá ættingjum meðan á söluferlinu stendur.

6. Pússaðu alla spegla og gler

Rými virka stærri og mun snyrtilegri ef speglar og gler er vel pússað.

7. Þrífðu bakaraofninn og helluborðið

Hreinn bakaraofn og hreint helluborð geta gert gæfumuninn. Þrifin láta heimilistækin virka nýrri og heillegri.

8. Búðu um rúmið

Mikilvægt er að búa vel um rúm. Ef falleg rúmföt eða gott rúmteppi er ekki til staðar gæti verið tilefni til að kaupa eitt slíkt eða fá það lánað meðan á söluferlinu stendur.

9. Dragðu frá gluggum

Rými stækka heilmikið þegar dregið er frá gluggum. Því mikilvægt að draga frá öllum gluggum.

10. Loftaðu út

Hafðu tvo eða fleiri glugga opna reglulega í nokkra tíma til að fá hreyfingu á loftið inni í íbúðinni.

Kynntu þér Húsnæðislán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is