Endurfjármögnun kallast það þegar tekið er nýtt húsnæðislán og það notað til að greiða upp núverandi lán eignarinnar. Endurfjármögnunarferlið getur virst flókið en er í raun einfaldara en ferlið að taka nýtt lán. Ekki þarf að selja neina eign og pappírsvinnan verður því minni. Oft getur endurfjármögnun minnkað mánaðarlega greiðslubyrði til muna, en hvernig veist þú hvort það henti þér?

Bjóðast betri kjör?

Í fyrsta lagi vilt þú auðvitað einungis endurfjármagna ef þú færð hagstæðari kjör en áður. Það er orðið auðveldara en áður að bera saman kjörin með tilkomu þjónustu eins og Aurbjörg þar sem þú hefur yfirlit yfir kjör margra lánveitenda. Með hagstæðari kjörum er oftast átt við lægri vexti og lægri greiðslubyrði á mánuði. Eftirfarandi atriði hafa áhrif á möguleg kjör þín þegar þú endurfjármagnar.

Hefur fjárhagsleg staða þín breyst?

Þegar þú sækir um húsnæðislán eru mörg atriði skoðuð varðandi þína fjárhagslegu stöðu. Ef lánshæfiseinkunn þín hefur versnað eða fjölgað hefur í fjölskyldunni (og útgjöldin þar með hækkað) getur verið að betra sé að bíða með endurfjármögnun, þar sem ekki er víst að betri kjör fáist.

Stærð núverandi húsnæðisláns

Ef lántaki greiðir ekki af húsnæðisláni sínu í nokkurn tíma hefur lánveitandi rétt á að selja eignina. Því skiptir máli hversu mikið þú skuldar af virði eignarinnar. Því lægri upphæð sem þú færð lánaða, því minni er áhættan fyrir lánveitanda því þá er auðveldara fyrir hann að fá peninginn sinn til baka. Þar með er ólíklegt að hagstæðari kjör bjóðist ef þú hefur ekki greitt mikið af núverandi húsnæðisláni þínu. Einnig getur verið óhagstæðara að endurfjármagna ef búið er að greiða of mikið af núverandi láni. Þá gæti kostnaður við endurfjármögnunina (lántökugjald nýja lánsins og hugsanlega uppgreiðslugjald þess eldra) verið hærri en sú upphæð sem þú myndir spara.

Verðmat eignar

Að sama skapi gildir að ef virði eignar þinnar hefur minnkað töluvert er hlutfall núverandi láns stærra en það var í upphafi þegar þú tókst lánið. Þar með bjóðast ný lán líklegast ekki á betri kjörum. Ef aftur á móti húsnæðið hefur hækkað mikið í verði hefur hlutfall núverandi láns í eigninni minnkað og endurfjármögnun gæti borgað sig.

Niðurstaða

Endurfjármögnun getur sparað þér töluverðar upphæðir ef ofangreindir þættir eru teknir til skoðunar áður en hefja á ferlið. Mikilvægt er að kynna sér vel sín kjör og önnur sem bjóðast og þá er aldrei að vita nema þú getir nýtt sparnaðinn í eitthvað skemmtilegra en vaxtagreiðslur.

Kynntu þér Húsnæðislán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is