Hvað er greiðslumat?

Greiðslumat er útreikningur á greiðslugetu umsækjenda um lán og tekur mið af ráðstöfunartekjum, eignum, opinberum neysluviðmiðum, gjöldum og skuldum.

Hvernig er greiðslumatið reiknað?

Ráðstöfunartekjur einstaklings/einstaklinga eru lagðar til grundvallar og frá þeim er síðan dreginn húsnæðiskostnaður, rekstrarkostnaður ökutækja, neysluviðmið (reiknivél fyrir neysluviðmið velferðarráðuneytisins má finna hér), afborganir af skuldum og ýmis fastur kostnaður, svo sem meðlag. Síðan eru dregnar frá afborganir af nýju láni/lánum. Ef talan sem kemur út úr þessu reikningsdæmi er jákvæð (ekki í mínus) telst aðili hafa staðist greiðslumat.

Það er mikilvægt að hafa í huga að hver og einn lánveitandi miðar við ólík neysluviðmið og einstakir lánveitendur miða í flestum tilvikum við neysluviðmið sem eru hærri en þau viðmið sem sett eru fram af velferðarráðuneytinu. Niðurstaða greiðslumats getur því verið neikvæð miðað við viðmið lánveitanda, en jákvæð miðað við grunnviðmið velferðarráðuneytisins

Enn fremur getur verið munur á því hvaða tekjur og hvaða gjöld lánveitendur taka með í greiðslumatið.

Hvað get ég gert ef ég stenst ekki greiðslumat?

Ef þú fellur á greiðslumati eru hér nokkrir punktar sem hjálplegt getur verið að hafa í huga:

  • Hefur þú möguleika á að hækka tekjurnar þínar? T.d. fá þér aukastarf eða taka á þig yfirvinnu.
  • Hefur þú möguleika á að endurskipuleggja skuldirnar þínar? Ef einstaklingur er með margar litlar skammtímaskuldir, svo sem raðgreiðslur á síma eða heimilistækjum, bílalán eða kortaskuldir getur borgað sig að taka eitt lán og sameina þær skuldir í lán til mögulega aðeins lengri tíma sem lækkar þá mánaðarlegar afborgarnir.
  • Getur þú hugsað þér að selja bílinn? Ef þú átt bíl, og sérstaklega ef hann er á lánum, gæti borgað sig að gefa bíllausum lífsstíl séns. Afborganir af bílaláni og rekstrarkostnaður bifreiðar telja hratt inn í greiðslumatið.
  • Passaðu upp á að þú sért að sníða þér stakk eftir vexti. Mögulega er eignin sem þú hefur hug á að kaupa of dýr fyrir þig. Það þarf að horfa á kaupverðið með gagnrýnum augum og meta hvort eignin henti fjárhagnum.

Greiðslumat felur ekki í sér ákvörðun um lánveitingu

Greiðslumat felur ekki í sér ákvörðun um lánveitingu. Þrátt fyrir að niðurstaða þess sé jákvæð getur lánveitandi samt sem áður hafnað umsækjanda um lán vegna annarra ástæðna.

Ef niðurstaða greiðslumats er neikvæð hefur lánveitandi einnig heimild til að veita lán á grundvelli frekari upplýsinga og rökstuðnings sem sýnir fram á að umsækjandi komi til með að geta greitt af láninu. Slíkt getur verið t.d. ef viðskiptasaga er góð og niðurstaða greiðslumats gefur ekki rétta mynd af greiðslugetu viðkomandi. Sem dæmi um tilvik þar sem lánveitandi gæti talið ástæðu til að veita lán þrátt fyrir neikvætt greiðslumat er ef umsækjandi um lán hefur haft takmarkaðar tekjur tímabundið, svo sem vegna fæðingarorlofs, náms eða árstíðabundinna verkefna.

Staðan er hins vegar sú að lánveitendur neita umsækjendum í langflestum tilfellum um slíka lánveitingu ef niðurstaða greiðslumats er neikvæð.

Kynntu þér Húsnæðislán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is