Ferlið við að gera tilboð í fasteign getur oft á tíðum verið ógagnsætt og strembið. Það segir sig sjálft að enginn vill greiða of mikið fyrir fasteign, frekar en annað sem hann kaupir. Tilboðið þarf þó að vera nógu hátt til að seljandinn samþykki það og standast samkeppni við önnur tilboð sem gætu borist samtímis í sömu eign.

Óhætt er að segja að engin töfraformúla liggi að baki hinni réttu kauptilboðsupphæð, en það eru þó ákveðin atriði sem sem gott er að velta fyrir sér. Að spyrja réttu spurninganna stuðlar ótvírætt að því að lagt sé fram vel ígrundað og betra kauptilboð.

Af hverju er fasteignin til sölu?
Það getur verið gagnlegt að komast að því hvers vegna eignin er yfir höfuð til sölu og fá þannig betri mynd af tímalínunni og hugsuninni að baki sölunni. Ef seljandinn er til dæmis búinn að gera tilboð í aðra eign með fyrirvara um sölu á eldri eign getur honum legið nokkuð á og þá er mögulega svigrúm til að bjóða lægra en ella.

Hversu mikið greiddu seljendurnir fyrir fasteignina?
Yfirgnæfandi líkur eru á því að söluverðið sé annað nú heldur en þegar seljendurnir keyptu fasteignina, en það getur þó verið hjálplegt að átta sig á hversu mikið greitt var fyrir hana á sínum tíma. Við skoðun á kaupverði seljenda skal tekið tillit til markaðsaðstæðna, þróun fasteignamats og endurbóta sem gerðar hafa verið á eigninni. Þannig er hægt að fá vísbendingu um hvaða kaupverð seljendurnir væru tilbúnir að sætta sig við.

Hversu há lán eru áhvílandi?
Rétt eins og það getur hjálpað til að vita af hverju fasteignin er til sölu getur staða áhvílandi lána varpað ljósi á hugsunarhátt seljenda. Ef mikið er áhvílandi á húsinu gæti verið að seljendurnir vilji losna við fasteignina fyrr til að greiða upp áhvílandi lán. Lægri lán gætu svo á móti gefið vísbendingu um meiri þolinmæði seljenda.

Hvernig er fasteignamarkaðurinn á svæðinu?
Þegar litið hefur verið til aðstæðna seljenda er gott að líta til ytri aðstæðna og skoða fasteignamarkaðinn sjálfan.

Ef framboð er mikið, eignir eru lengi á sölu og fasteignamarkaðurinn fremur hægur er talað um kaupendamarkað. Þá er minni samkeppni og viljinn til að taka tilboðinu þínu gæti verið meiri, þar sem seljandinn getur ekki treyst á að fleiri tilboð muni berast.

Ef framboð er lítið og eignir eru fljótar að seljast er talað um seljendamarkað. Þá er líklegt að fleiri en eitt tilboð berist í eignina og þar af leiðandi fer verð oft hækkandi. Ef markaðurinn stendur þannig gætir þú þurft að bjóða uppsett verð eða jafnvel yfir uppsettu verði ef þú vilt tryggja þér eignina.

Hafa sambærilegar sölur átt sér stað nýlega í nágrenninu?
Hægt er að fletta upp nýlegum þinglýstum kaupsamningum hér. Þannig er hægt að átta sig á því á hvaða verði sambærilegar eignir hafa verið að seljast á upp á síðkastið.

Er eignin búin að vera lengi til sölu?
Segja má að þessi liður segi sig svo sjálfur. Almenna reglan er að því lengur sem fasteignin hefur verið á sölu, því líklegra er að seljandinn taki tilboði undir ásettu verði.

Kynntu þér húsnæðislán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is