Aukist hefur verulega í flóru hinna ýmsu tegunda greiðslukorta á undanförnum árum. Í grunninn eru gerðir kortanna tvær, debetkort og kreditkort, sem gott er að þekkja muninn á. Hér á eftir verður farið yfir hvenær ráðlegt er að nota kreditkort og hvenær debetkort, hver helsti munurinn sé þar á og hvort hægt sé að ná fram sparnaði með því að nota rétta kortið við réttar aðstæður.

Almennur munur

Debetkort er beintengt við bankareikning og hver færsla á kortinu lækkar því upphæðina á bankareikningnum. Þannig eyðir þú einungis þeirri upphæð sem þú átt fyrir. Kreditkort er hins vegar ekki beintengt neinum bankareikningi, heldur færðu peninginn í raun lánaðan frá bankanum og greiðir svo skuldina næstu mánaðamót. Það eru þó einnig til fyrirframgreidd kreditkort sem koma í veg fyrir að þú eyðir meira en þú hefur efni á. Það truflar þó suma að þegar um fyrirframgreidd kreditkort er að ræða uppfærist yfirlitið í heimabankanum ekki samstundis líkt og debetkortareikningurinn, þar sem kreditfærsla tekur lengri tíma að fara í gegn þegar kortið er notað.

Mörgum þykir öruggara að nota einungis debetkort eða fyrirframgreitt kreditkort því þá er ekki hætta á að eyða meira en þú átt fyrir. Það getur þó verið gott að nota kreditkort við kaup á almennum neysluvörum, svo sem við kaup á matvörum og eldsneyti. Þá er hægt að ávaxta ráðstöfunartekjurnar inni á óbundnum reikningi sem hefur hærri vexti en sá sem tengdur er við debetkortið þar til kreditkortareikningurinn er greiddur við lok mánaðar.

Kortanotkun hérlendis

Árgjald er greitt bæði af kredit- og debetkortum, en yfirleitt er árgjald kreditkorta töluvert hærra en árgjald debetkorta. Miðað við núverandi verðskrár* stærstu bankanna hér á landi er ódýrasta árgjald kreditkorts 1.900 kr. en dýrasta 41.900 kr. Hins vegar eru engin færslugjöld við notkun kreditkorts á meðan hver færsla af debetkorti kostar 18 til 19 kr. samkvæmt núverandi verðskrám bankanna. Ýmis fríðindi bjóðast með kreditkortanotkun, eins og ferðatryggingar og ferðapuntkar, og helst þá hátt árgjald í hendur við aukin fríðindi. Ekkert gjald er tekið fyrir úttekt úr hraðbanka hérlendis með debetkorti ef þú ert viðskiptavinur viðkomandi banka. Hins vegar er gjald tekið fyrir úttekt með kreditkorti, oft um 1-2% af upphæðinni.

Kortanotkun erlendis

Við úttekt úr hraðbanka erlendis er hagstæðara að notast við debetkort þar sem úttektarþóknun debetkorta er lægri en kreditkorta. Hins vegar er oft hagstæðara að nota kreditkortið í verslunum erlendis þar sem aukaálag leggst við erlendar debetkortafærslur í verslunum. Það þarf þó ekki endilega að vera svo þar sem endanlegt gengi kreditkortafærslna kemur ekki inn fyrr en við uppgjör söluaðila og gengið kann því að hafa breyst lítillega. Stundum býðst fólki að velja hvort það vilji greiða með greiðslukorti í íslenskum krónum í stað gjaldmiðli viðkomandi lands. Þá er yfirleitt dýrara fyrir korthafa að greiða í íslenskum krónum þar sem því getur fylgt nokkuð hátt álag, en hægt er að lesa meira um það hér.

Niðurstaða

Debetkort

Eyðir því sem þú átt
Árgjöld ódýrari
Ekkert gjald tekið fyrir hraðbankaúttektir innanlands
Lægra gjald tekið fyrir hraðbankaúttektir erlendis
Yfirlit uppfærist um leið og færsla á sér stað, auðvelt að fylgjast með
Færslugjöld
Álag við notkun í verslunum erlendis

Kreditkort

Fríðindi, t.d. trygging eða ferðapunktar
Engin færslugjöld
Árgjald dýrara
Yfirlit uppfærist ekki eins hratt
Gjald tekið fyrir úttekt úr hraðbanka hérlendis
Hærri þóknunargjöld vegna úttektar úr hraðbanka erlendis

* Miðað er við verðskrá Arion banka sem gildir frá 1.8.2018, verðskrá Íslandsbanka sem gildir frá 4.5.2018 og verðskrá Landsbankans sem gildir frá 19.6.2018

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is