Ef þú ert að hugsa um að fara í skiptinám þá mun þessi færsla vonandi svara einhverjum af þeim spurningum sem þú hefur verið að velta fyrir þér. Kostir þess að fara í skiptinám eru óneitanlega margir, hér verður farið yfir nokkra þeirra og atriði sem er gott að hafa í huga.

Lífsreynsla

Ásamt því að vera ógleymanleg lífsreynsla þá eykur skiptinám virði háskólagráðunnar og getur aukið möguleika á vinnumarkaði. Þegar þú kemur heim úr skiptináminu, snýrðu aftur með ný viðhorf gagnvart menningu, öflugri tungumálakunnáttu, sjálfstæða hugsun og það að hafa þurft að standa á eigin fótum í framandi umhverfi. Allt þættir sem teljast eftirsóknarverðir á vinnumarkaði. Auk þess eru miklar líkur á því að skiptinámið muni efla tengslanetið þitt sem gæti alltaf komið sér að góðu.

Að fara í skiptinám gefur þér frábær tækifæri til þess að ferðast þar sem þú ert ekki lengur á eyju í miðju Atlantshafi. Þegar þú ert komin til Bandaríkjanna, Evrópu eða hvert sem er, er lítið mál að ferðast á milli borga og jafnvel landa. Það er hægt að fljúga mjög ódýrt innan Evrópu og ekkert mál að skreppa til dæmis frá Spáni yfir til Ítalíu.

Ferlið

Ef að þú hefur hug á því að fara í skiptinám er gott að vera með það á bakvið eyrað þegar þú byrjar í háskóla. Flestir háskólar fara fram á að nemendur sem ætla að fara í skiptinám uppfylli ákveðnar kröfur um lágmarks meðaleinkun. Einnig er mikilvægt að skoða vel hvort að skólinn sem þig langar í henti þér og þínum námsmarkmiðum og bjóði upp á alla þá áfanga sem þú þarft að taka.

Byrjaðu umsóknarferlið snemma og ekki vera á seinustu stundu varðandi skil á gögnum til þeirra aðila sem sjá um ferlið. Mættu á fundi og kynningar á vegum þeirra sem sjá um skiptinámið til þess að vera sem best upplýst/ur um ferlið og þá þætti sem þarf að hafa í huga.

Byrjaðu snemma að kynna þér húsnæðismál og ef þú hefur tök á því, að ræða við einhvern sem hefur farið á undan þér er það mjög gott. Margir skólar bjóða upp á heimavist eða stúdentaíbúðir en oftar en ekki útvega nemendur sér húsnæði á eigin vegum. Hafðu augun opin fyrir svindlurum og verslaðu frekar við fyrirtæki heldur en einstaklinga. Ef einhver er að reyna bjóða þér lygilega góð kjör á húsnæði þá er það líklegast lygi. Ef þú hefur tök á því er gott að mæta nokkrum dögum áður en skólinn byrjar til þess að koma þér fyrir og kynnast nýju umhverfi.

Alþjóðavæðing

Að fara í skiptinám er einstakt tækifæri til þess að efla sjáfan sig sem einstakling og kynnast menningu og samfélagi annarrar þjóðar. Notaðu því tíman á meðan þú ert í skiptináminu til þess að kynnast samfélaginu eins vel og þú getur. Margir skiptinemar kunna svo vel við sig í landinu sem þeir fara til að þeir fara aftur til þess að mennta sig frekar eða setjast að þar. Það er alveg á hreinu að þeir sem fara í skiptinám eru reynslunni ríkari þegar kemur að því að sækja um frekara nám eða vinnu erlandis. Með aukinni alþjóðavæðingu í heiminum eru gerðar auknar kröfur um reynslu af alþjóðlegu samstarfi á vinnumörkuðum.

Kynntu þér Námslán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is