Framtíðin gerði í fyrra samkomulag við breska sendiráðið um að fjármagna í tvö ár Chevening styrki fyrir íslenska námsmenn til meistaranáms í Bretlandi. Chevening námsstyrkir eru fjármagnaðir af breska utanríkisráðuneytinu og samstarfsaðilum og eru virtustu námsstyrkir sem breska ríkið veitir íslenskum námsmönnum. Meðal markmiða með veitingu styrkjanna er að styðja leiðtoga framtíðarinnar sem geta mótað innlend jafnt sem alþjóðleg málefni með því að byggja á reynslu sinni og nánu sambandi við Bretland.

Handhafi styrksins í ár er Jóhanna Hlín Auðunsdóttir. Hún hefur starfað hjá Landsvirkjun undanfarin þrjú ár en mun í vetur stunda nám í sjálfbærniverkfræði (e. sustainability engineering) við Heriot-Watt háskóla í Edinborg í Skotlandi. Styrkurinn var afhentur við hátíðlega athöfn í breska sendiráðinu í ágúst.

Við nýttum tækifærið og spurðum Jóhönnu nokkurra vel valinna spurninga:

Hver er þín fyrri menntun?

Ég kláraði BSc í Umhverfis- og byggingarverkfræði frá HÍ árið 2017.

Hvernig datt þér í hug að sækja um Chevening námsstyrk?

Vinur minn úr fyrra námi benti mér á þennan valmöguleika fyrir nemendur á leið í nám til Bretlands. Eftir því sem ég skoðaði meira um Chevening leist mér betur og betur á styrkinn og ákvað að slá til og sækja um.

Hvernig var umsóknarferlið um styrkinn?

Umsóknarferlið er frekar veigamikið en samt sem áður mjög aðgengilegt. Flestir hlutar umsóknarferilsins fara fram á netinu og leiðbeiningar skýrar sem gerði það að svara spurningum Chevening auðveldara.

Hvað ert þú að fara að læra og af hverju?

Öll neysla krefst framleiðslu og öll framleiðsla krefst nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbærniverkfræði (e. sustainability engineering) skoðar hvernig stuðla megi að heilbrigði umhverfis, samfélaga og efnahags í gegnum hönnun framleiðsluferla og rekstur fyrirtækja. Ég hef alla tíð verið mikill náttúruunnandi og haft gríðarlegan áhuga á umhverfismálum. Grunnnámið í umhverfis- og byggingarverkfræði ýtti undir þennan áhuga sem ég hef svo fengið útrás fyrir og þroskað sem starfsmaður á umhverfisdeild Landsvirkjunar. Ég vona að námið hér í Edinborg muni veita mér breiðari skilning á samspili umhverfis, samfélags og efnahags og hvernig stuðla/stýra megi heilbrigði þessara þátta.

Hvernig valdir þú skólann og hvernig var umsóknarferlið?

Ég valdi skólann út frá námsbrautinni en ég var sérstaklega að leita að námi í umhverfisstjórnun eða umhverfis/sjálfbærniverkfræði. Ekki skemmir fyrir að ég þekki til nokkurra sem hafa stundað nám við skólann og greinilega hlotið góða menntun.

Umsóknarferlið var rafrænt og nokkuð þægilegt. Skila þurfti inn meðmælum frá fyrri menntastofnunum og vinnuveitanda, ferilskrá og staðfestingu fyrri á námsárangri ásamt einkunn í enskuprófi. Skólinn var fljótur að svara og upplýsingagjöf er mjög góð.

Hvernig er tilhugsunin um að setjast aftur á skólabekk?

Ég er orðin spennt, sérstaklega þar sem námið er frekar sérhæft og ég er fullviss um að ég hafi gríðarlegan áhuga á málefninu.

Hvernig fjármagnar þú námið fyrir utan styrkinn?

Ég er að koma af vinnumarkaði og við vorum búin að leggja svolítið fyrir en annars er kærastinn í vinnu og uppihald á fjölskyldunni mun því líklega hvíla svolítið þyngra á honum á meðan náminu stendur.

Hverjar eru helstu áskoranirnar við að fara erlendis í nám með fjölskyldu?

Það er eflaust jafn mismunandi og löndin eru mörg. Hér í Skotlandi virðist vera erfiðara að fá dagvistun heldur en heima á Íslandi og það var mikið atriði fyrir okkur að finna barnvænt hverfi. Það var mikilvægt fyrir okkur að sjá til þess að Óðni, syni mínum, líði vel á meðan við erum hér og þá krefjast flutningarnir líklega meiri skipulagningu og lengri undirbúning en ef ég hefði farið ein.

Við óskum Jóhönnu innilega til hamingju með styrkinn og góðs gengis í náminu.

Kynntu þér Námslán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is