Það er helsta markmið margra íslenskra ungmenna að eignast eigið húsnæði og þar af leiðandi safna fyrir útborgun. Í mörgum löndum í kringum okkur, þar sem er fyrir hendi virkur leigumarkaður fyrir alla sem vilja, er oft uppi mikil umræða hvort borgi sig frekar að eiga eða leigja húsnæði.

Þessi spurning hefur ekki farið jafn hátt hér á landi enda þröngur leigumarkaður og kerfi sem hvetur til kaupa frekar en leigu á húsnæði. Með hækkandi húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu hefur þessi spurning þó orðið algengari og verða hér vegnir saman kostir og gallar við kaup og leigu á fasteign.

Útborgun

Leigja

Þegar húsnæði er leigt er í flestum tilvikum gerð krafa um að leigutaki reiði fram tryggingu. Slík trygging er að jafnaði þriggja mánaða leiga. Þessi upphæð er þó endurgreidd þegar leigutíma lýkur en leigusala er heimilt að draga frá kostnað vegna skemmda og tjóns á húsnæðinu á leigutímanum.

Eiga

Í reglum um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda er gerð sú krafa að kaupendur íbúðarhúsnæðis reiði fram 15% af kaupverði hennar í útborgun nema í þeim tilvikum þar sem um fyrstu kaup er að ræða en þá skal upphæðin vera að minnsta kosti 10%

Dæmi: Einstaklingur sem ætlar að kaupa fasteign á 32 m.kr. þarf að leggja fram 3,2 m.kr. í útborgun ef um fyrstu kaup er að ræða en 4,8 m.kr. í öðrum tilvikum. Í augum flestra eru þetta mjög háar fjárhæðir. Því tekur lengri tíma ða safna fyrir húsnæði heldur en að fara út á leigumarkaðinn.

Innréttingar

Leigja

Leigjendum eru settar þrengri skorður heldur en eigendum þegar kemur að innréttingum í fasteign. Það fer eftir leigusölum og samningum við þá hvað leigjendum er heimilt að gera við húsnæðið á leigutímanum. Margir leigusalar heimila leigjendum e.t.v. að mála veggi og því um líkt en það er mjög óalgengt að leigjendur hafi leyfi til að gera varanlegar breytingar á húsnæði eða innréttingum þess.

Eiga

Í eigin fasteign hefur maður val um að breyta innréttingum, veggjum og fleiru að vild og þannig sniðið húsnæðið að eigin hentugleika og smekk. Fyrir marga er þetta stór kostur.

Skattar og gjöld

Leigja

Kostnaður við skatta og gjöld er yfirleitt innifalinn í leigunni. Möguleiki er á húsnæðisbótum fyrir tekjulága einstaklinga (hét áður húsaleigubætur).

Eiga

Það er ýmis kostnaður sem kemur til þegar maður kaupir og á fasteign. Sem dæmi má nefna lántökugjöld, stimpilgjöld (0,4-0,8% af fasteignamati keyptrar eignar), umsýslugjald til fasteignasala, fasteignagjöld, fráveitugjöld, rafmagn og hiti.

Viðhald

Leigja

Leigutakar bera að jafnaði ekki ábyrgð og kostnað af viðhaldi fasteignar þar sem það er innifalið í leiguverði. Það getur munað um það, sérstaklega ef búið er í eldra húsnæði þar sem þörf er á miklu viðhaldi.

Eiga

Ef þú átt fasteign berð þú kostnaðinn og ábyrgðina á öllu viðhaldi á eigninni. Til dæmis ef þakið fer að leka, rör springa eða það þarf að mála húsið.

Stöðugleiki eða sveigjanleiki?

Það fer eftir framtíðaráætlunum og lífsstíl hvers og eins hvort áhersla sé á stöðugleika eða sveigjanleika. Ef um er að ræða barnafjölskyldu þar sem börnin eru byrjuð í skóla eða leikskóla gæti stöðugleiki skipt meira máli heldur en fyrir ungan einstakling sem ætlar sér ekki að búa lengi á sama stað. Ósveigjanleiki í búsetu getur verkað hamlandi enda hefur fólk sjaldan átt auðveldara með að skipta um vinnu eða flytjast milli sveitarfélaga, landa og heimsálfa.

Leigja

Það er óneitanlega minna öryggi fólgið í því að leigja húsnæði. Leigusali getur ákveðið að hætta að leigja til leigjanda þegar leigusamningur rennur út. Einnig er möguleiki á að leigusamningi sé rift séu riftunarheimildir í leigusamningi. Aftur á móti veitir leiguformið einstaklingum svigrúm sem vilja ef til vill eiga möguleika á því að flytjast á milli landa með litlum fyrirvara án þess að vera með mikla fjármuni bundna í fasteign.

Eiga

Þegar fasteign er keypt getur eigandinn verið öryggur með að þar fái hann að búa. Allavega svo lengi sem hann greiðir af lánunum og stendur við skuldbindingar. Aftur á móti er sveigjanleikinn minni þegar maður á eign því það getur verið dýrt og tímafrekt að selja eignina.

Tryggingar

Leigja

Tryggingar eru yfirleitt innifaldar í leiguverði. Leigjandi þarf því ekki að standa straum af tryggingakostnaði tengdum fasteigninni nema þá mögulega innbústryggingu.

Eiga

Í eigin húsnæði þarf eigandi að standa straum af kostnaði við tryggingar.

Séreignarlífeyrissparnaður

Leigja

Aðilar á leigumarkaði njóta ekki góðs af því skattahagræði sem úrræði eins og ,,fyrsta fasteign” og nýting séreignarlífeyrissparnaðar á lán bjóða upp á.

Eiga

Úrræðið ,,fyrsta fasteign” veitir fyrstu kaupendum skattafslátt með því að gera útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar skattfrjálsan. Einnig er mögulegt að greiða séreignarlífeyrissparnað skattfrjálst inn á lán.

Niðurstaða

Sé litið á samanburðinn út frá fjárhagslegum sjónarmiðum eingöngu er hagstæðara að kaupa eign heldur en að leigja hana, sérstaklega ef ætlunin er að búa í húsnæðinu til lengri tíma. Hver og einn þarf þó að meta út frá eigin aðstæðum hvort það henti honum betur að kaupa eða leigja húsnæði.

Kynntu þér Húsnæðislán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is