Að velja rétta hverfið og staðsetningu er eitt það mikilvægasta (og erfiðasta) þegar leitað er að draumafasteigninni. Þrátt fyrir að þú hafir póstnúmer í huga þá getur verið erfitt að negla niður endanlega hvar það myndi passa þér og þínum þörfum fullkomlega að búa. Það er svo margt sem spilar inn í: Verð, fjarlægð frá vinnu, skólar og leikskólar hverfisins, nálægð við fjölskyldu og vini o.fl.. Hér eru nokkur góð ráð til að hafa í huga þegar þú þrengir leitina að draumahverfinu.
Rannsakaðu hvert hverfi fyrir sig
Skoðaðu hvert póstnúmer fyrir sig í leitarvélunum

Skoðaðu meðalfermetraverð eftir hverfum
Á vefsíðu Þjóðskrár er auðvelt að skoða þróun meðalkaupverðs á fermetra til að bera saman verð á mismunandi svæðum. Eins og staðan er í dag er Miðborgin með dýrasta fermetraverðið, um 500 þ.kr. á fermetra. Þar má líka sjá að ódýrustu hverfin 2017 voru Vangar og Álfaskeið í Hafnafirði og Selja- og Húsahverfi í Reykjavík. Ef þú ert ekki föst/fastur á að kaupa í einhverju ákveðnu hverfi heldur ert frekar að hugsa um að fá hagstætt verð getur reynst mjög hjálplegt að rýna í tölurnar hjá Þjóðskrá.

Skoðaðu verðmat fasteignar út frá sambærilegum eignum í nágrenninu
Þegar þú ert komin/n lengra í ferlinu og jafnvel tilbúin/n að senda inn kauptilboð er mikilvægt að átta sig á hvort eignin sé rétt verðsett miðað við sambærilegar eignir á svipuðu svæði. Nokkur öflug tól eru til til að átta sig betur á því.
Verðsjá Þjóðskrár Íslands
Í verðsjánni getur þú skoðað verðlagsþróun ákveðinna svæða út frá mismunandi leitarskilyrðum eins og tegund húsnæðis, byggingarári, flatarmáli og fleira. Þetta getur gefið þér góða mynd af því hvort þú ert að greiða sanngjarnt verð fyrir fasteign áður en lagt er inn kauptilboð.

Verðsjá Þjóðskrár Íslands fyrir Laugardalinn í Reykjavík
Verðsjá Procura
Á Procura.is getur þú séð áætlað sölu- og leiguverð 98% íbúðareigna á höfuðborgarsvæðinu. Þú getur flett upp fasteigninni sem þú hefur í huga og borið saman verðmat Procura og ásett verð til að meta hversu hátt kauptilboð þú ættir að leggja inn.

Verðmat Procura fyrir Hraunbæ í Reykjavík
Berðu saman kostnaðarliði eftir svæðum
Álagning á fasteignir er misjöfn eftir svæðum og sveitarfélögum. Þar þarftu að bera saman hefðbundna kostnaðarliði eins og fasteignagjöld, leikskólagjöld og fleira en einnig þarf að taka til greina annan kostnað, t.d. vegna aksturs til og frá vinnu, kostnað vegna íþróttaiðkunar, frístunda og fleira ef börn eru á heimilinu.
Fasteignagjöld
Fasteignaálagning er mjög mismunandi á milli sveitarfélagana. Inni á heimasíðum sveitarfélaganna má finna upplýsingar um fasteignaálag hvers árs fyrir sig. Eins og sjá má á eftirfarandi mynd getur munað heilmiklu í kostnað fyrir heimilið eftir því í hvaða sveitarfélagi heimilið er.

Fasteignagjöld fyrir 100 fm fjölbýli. Heimild: Verðlagseftirlit ASÍ
Leikskólagjöld
Ef þú ert með barn á leikskólaaldri á heimilinu er mikilvægt að skoða kostnað vegna leikskóla en munurinn getur verið talsverður eftir sveitarfélögum. Samkvæmt könnun sem gerð var af ASÍ í byrjun 2018 þá er allt að 145 þ.kr. munur á leikskólagjöldum á ári eftir sveitarfélögum.

Leikskólagjöld eftir sveitarfélagi. Heimild: Verðlagseftirlit ASÍ
Önnur gjöld
Fjölmörg önnur gjöld má skoða til samanburðar á milli svæða. Heilmikill kostnaður getur falist í keyrslu til og frá vinnu til dæmis. Viðskiptaráð hefur tekið saman handhæga reiknivél þar sem borinn er saman kostnaður þess að halda úti heimili eftir svæðum. Hana má nálgast á bestadbua.vi.is.
Finndu hverfi sem hentar þínum þörfum
Að rýna í verð og verðþróun er mikilvægt en einnig þarf að hafa í huga þinn lífsstíl og hvernig hverfið uppfyllir þínar persónulegar þarfir. Lífsstíll fólks er afar misjafn, sumir vilja hafa stutt á golfvöllinn meðan aðrir leggja mikið upp úr því að hjólastígarnir í og úr hverfinu séu góðir. Hérna eru nokkur atriði sem gott er að fara yfir þegar bornar eru saman mismunandi staðsetningar:
- Hvað er langt í skóla og leikskóla?
- Hafa skólarnir gott orð á sér?
- Er mikið af börnum á svipuðum aldri í hverfinu?
- Hvernig stendur íþróttafélagið í hverfinu að barnastarfi?
- Er skólafrístund í boði?
- o.s.frv. o.s.frv.