Þegar kemur að því að taka húsnæðislán er að mörgu að huga. Hægt er að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra húsnæðislána með föstum eða breytilegum vöxtum. Enn fremur geta lántakar valið hvort þeir vilji borga lánið niður með jöfnum afborgunum eða jöfnum greiðslum. Í þessari færslu verður farið yfir það hver munurinn er á því þegar lán eru greidd niður með jöfnum afborgunum og jöfnum greiðslum, hvaða áhrif það hefur á niðurgreiðslu lánsins og þróun afborgana.

Jafnar afborganir

Þegar lán er greitt niður með jöfnum afborgunum greiðir lántaki alltaf sömu upphæð af höfuðstól lánsins, lántaki greiðir því lægri vexti eftir því sem höfuðstóll lánsins lækkar. Af þessu leiðir að greiðslur af láni sem greitt er niður með jöfnum afborgunum eru hærri til að byrja með heldur en af láni sem er greitt niður með jöfnum greiðslum, en lækka þegar líður á lánstímann. Verðtryggingin flækir málið aðeins, með jöfnum afborgunum eru aðeins raunvextir og afborganir greiddar í einu lagi. Hækkun láns vegna verðtryggingar er bætt við höfuðstólinn sem er síðan smám saman greiddur niður. Höfuðstóll lánsins þróast þar af leiðandi með verðlagi.

Jafnar greiðslur

Lán sem greidd eru niður með jöfnum greiðslum er stillt þannig upp að alltaf er greidd sama upphæð á gjalddaga út lánstímann, hlutfall vaxta og höfuðstóls er hins vegar mismunandi eftir því sem líður á lánstímann. Til að byrja með vega vaxtagreiðslur þyngra og afborganir lítið en smám saman eftir því sem líður á lánstímann og höfuðstóll lánsins minnkar þá dregur úr vægi vaxtagreiðslna en vægi afborgana fer hækkandi. Þegar um verðtryggð jafngreiðslulán er að ræða er verðtrygging lögð við höfuðstól ár hvert og er sú tala ekki einfaldlega reiknuð í upphafi heldur þarf að endurreikna hana fyrir hvert ár með tilliti til hækkunar höfuðstóls.

Verðtryggð jafngreiðslulán hafa lengi verði vinsælustu húsnæðislánin á Íslandi. Ástæðuna má rekja til þess að greiðslubyrði í upphafi er töluvert lægri en greiðslubyrðin á öðrum tegundum lána. Síðustu mánuði hefur þróunin þó verið á þann veg að fólk er að færa sig yfir í óverðtryggð lán í auknum mæli vegna væntinga um aukna verðbólgu.

Forsendur útreikninga: 28 m.kr. lán til 40 ára, verðtryggðir vextir 2,7%, verðbólga 3,5%, óverðtryggðir vextir 6,29%

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is