Jólin eiga að vera ánægjulegur og notalegur tími, en hjá of mörgum fylgir jólunum oft mikið stress og oftar en ekki er það tilkomið vegna þess að fólk hefur áhyggjur af fjármálunum yfir hátíðarnar. Lífsgæðakapphlaupið sem er í gangi nú til dags bætir ekki út skák og getur aukið enn frekar á þessar áhyggjur og fækkað ánægju stundum yfir jólin.

Þótt þú komist ekki hjá því að heyra Jólahjól hvert sem þú ferð yfir hátíðarnar, þá er hægt að  lágmarka fjárhagslegar áhyggjur og raunverulega njóta jólahátíðarinnar.

Planaðu eyðsluna fyrirfram

Það er vel þekkt að fólk hefur tilhneigingu til þess að eyða umfram efni yfir jólahátíðina. Það er að hluta til komið vegna þess að fólk eltir tilboð og útsölur án þess að setja fyrst upp áætlun yfir það hvað það ætlar, og hefur tök á að eyða. Að setja upp fjárhagsáætlun er að öllum líkindum ein besta leiðin til að forðast það að prjóna yfir sig á jólunum. Ekki bara gera fjárhagsáætlun, haltu utan um það hvernig þú eyðir samanborið við fjárhagsáætlunina til þess að tryggja það að þú eyðir ekki meira en þú hefur tök á.

Ekki missa þig á útsölum

Að kaupa fjöldan allan af jólagjöfum getur verið mikið högg fyrir budduna. Eins og fjallað var um í kringum svarta föstudaginn þá er mikilvægt að láta ekki glepjast af gylliboðum og kaupa ónauðsynlega hluti sem einungis veita skammtíma hamingju. Vandaðu valið við jólagjafakaup og reyndu að gefa praktíska hluti sem lifa lengi.

Eyddu tíma með fjölskyldu og vinum

Gjafir eru órjúfanlegur hluti jólahátíðarinnar en það kostar ekkert að eyða tíma með fjölskyldu og vinum yfir hátíðarnar. Áherslan ætti að vera á samveru stundirnar með fjölskyldu og vinum en ekki á veraldlega hluti. Áhugaverð rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum sýndi fram á það að tæplega sjö af hverjum tíu myndu fallast á það að sleppa því að gefa gjafir ef að fjölskylda og vinir myndu fallast á það.

Ekki lifa um efni fram

Eins og almennt í lífinu er betra að eiga fyrir hlutunum og forðast það að taka lán eða yfirdrátt til þess að komast hjá fjármagnskostnaði. Raunveruleikinn er þó sá að sumir þurfa einfaldlega auka fjármagn til þess að komast í gegnum jólin. Þegar það er tilfellið er mikilvægt að taka einungis lán fyrir nauðsynjavörum og ekki kaupa hluti af því að þig langar í þá. Ef þú hefur safnað upp hærri skuldum en upphaflega stóð til getur verið gott að endurfjármagna þær á eins góðum vöxtum og mögulegt er.

Fjárhagsáhyggjur þurfa ekki að valda því að jólahátíðin breytist í andlegt gjaldþrot eins og hjá Griswold fjölskyldunni í Christmas Vacation. Með því að skipuleggja eyðsluna fyrirfram og halda vel utan um útgjöldin getur þú notið jólahátíðarinnar og byrjað nýtt ár á báðum fótum.

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is