Það er ýmislegt sem þarf að hugsa út í þegar kaup á fasteign eru annars vegar. Hér að neðan eru talin upp nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar verið er að skoða fasteign.

Ekki hika við að skoða eignina almennilega á opnu húsi eða bókaðri skoðun

Það er um að gera að skoða vel öll horn, opna skápa, prufa að sturta klósettinu og skrúfa frá krönum til að kanna flæðið á vatninu. Það hvílir rannsóknarskylda á kaupendum og þeir gallar sem hefðu átt að sjást við hefðbundna skoðun á fasteign fást ekki bættir.

Spurðu út í ástand eignarinnar

Spurðu út í ástand á lögnum, skólpi, dreni, gluggum, veggjum og þaki.

Það getur verið kostnaðarsamt og einstaklega óhentugt fyrir einstaklinga sem eru nýbúnir að kaupa fasteign að það komi í ljós að þakið sé ónýtt eða það þurfi að skipta um lagnir.

Því er ráðlegt að spyrja um meira en minna. Ef ekki fást svör við spurningum um ástand þessara þátta eða seljandi er ekki viss getur ástandsskoðun verið góð fjárfesting. Til dæmis að láta rakamæla veggi og mynda lagnir.

Ekki láta blekkjast af atriðum sem er auðvelt að breyta

Það er algengt að kaupendur láti blekkjast af fallegum húsgögnum og góðum smekk seljanda. Þetta á líka við öfugt, þ.e. þegar kaupendur láta æpandi liti og gömul húsgögn koma í veg fyrir kaup á góðu húsnæði.

Það er mikilvægt að hafa hugann við “skelina”, þ.e. gluggarnir, innréttingarnar, gólfefnið og það sem kemur til með að fylgja íbúðinni sé í lagi.

Ekki gleyma að reikna með viðbótarkostnaðinum

Þegar fasteign er keypt fylgir þónokkur viðbótarkostnaður.

Sem dæmi um slíkt má nefna:

  • Stimpilgjöld af kaupsamningum sem eru 0,4% fyrir fyrstu kaupendur og 0,8% fyrir aðra af heildarfasteignamati, þ.e. lóðarmati auk húsmats.
  • Greiðsla umsýslugjalds til fasteignasala sem er oft í kringum 60.000 kr. (ef við á).
  • Kostnaður við þinglýsingu skjala sem er kr. 2.000 af hverju skjali sem þinglýst er.
  • Kostnaður við að mála eða skipta um gólfefni ef þörf er á.

Kynntu þér alla möguleika á lánamarkaði

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan eina leiðin til að fá íbúðarlán var hjá bönkunum. Núna eru flestir lífeyrissjóðir farnir að veita húsnæðislán auk Framtíðarinnar sem veitir viðbótarhúsnæðislán sem hugsað er til viðbótar við lán frá lífeyrissjóði eða banka.

Á síðustu árum hafa sprottið upp síður sem auðvelda samanburð á lánskjörum, svo sem síðurnar Aurbjörg og Herborg.

Flestir ef ekki allir lánveitendur eru með “spurt og svarað” á heimasíðunum sínum sem getur verið mjög hjálplegt að skoða. Enn fremur er hægt að senda tölvupóst með spurningum eða panta símtal.

Það getur borgað sig að kanna vaxtakjörin og framboðið vandlega áður en tekin er ákvörðun um hvar lán til fasteignakaupa skal tekið.

Kynntu þér Húsnæðislán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is