Margir erlendir háskólar gera ákveðnar kröfur um enskukunnáttu umsækjenda. TOEFL prófið er eitt vinsælasta enskuprófið og margir skólar taka það gilt sem staðfestingu á kunnáttu umsækjenda. Hér koma því nokkur góð ráð til fólks sem hyggjast taka prófið.

Uppbygging prófsins

Það er mikilvægt að kynna sér vel uppbyggingu prófsins svo ekkert komi á óvart þegar í prófið er komið. TOEFL prófið skiptist í fjóra hluta sem koma í þessari röð: lestur, hlustun, tal og ritun.

Lestur

Fyrsti hluti TOEFL er leshluti. Hann skiptist í 3-4 greinar sem lesa þarf og 14-16 spurningum er svarað eftir hverja grein. Prófið áætlar 20 mínútur fyrir hverja grein (60-80 mínútur samtals), eða tæplega 1 og hálfa mínútu í hverja spurningu ef enginn tími er notaður til að lesa greinina sjálfa.  Tíminn er því afar naumur og því er nauðsynlegt að æfa sig að leysa spurningarnar með tímatöku. Það getur jafnvel verið gott að fara á stað þar sem ekki er of mikið næði vegna þess að í prófinu sjálfu er oft truflun frá öðrum sem getur haft áhrif á einbeitingu. Það er gott að stefna á að klára hverja grein og spurningarnar sem fylgja á u.þ.b. 17 mínútum svo tími gefist í lokin í yfirferð á öllum spurningum.

Hlustun

Hlustun er annar hluti prófsins. Hlustað er á nokkur samtöl, annað hvort á milli tveggja aðila að ræða saman ákveðið vandamál eða kennari með fyrirlestur. Nokkrum spurningum er svarað við lok hverrar hlustunar. Í þessum hluta er gott að punkta niður nokkur atriði um leið og hlustað er, en alls ekki punkta of mikið niður því annars gætir þú misst af mikilvægum atriðum sem nefnd eru. Áherslan er ekki á smáatriði svo ef þú átt í vandræðum með að punkta niður á sama tíma og þú hlustar gæti verið betra að leggja frá sér pennann og einbeita sér aðeins að hlustuninni.

Tal

Tíu mínútna hlé er gefið eftir hlustunarhlutann. Strax eftir hlé hefst talhlutinn. Það getur truflað þegar fólk er að tala hvert ofan í annað en maður þarf að vera undirbúinn fyrir það. Talhlutinn skiptist í 6 verkefni. Þau eru alltaf eins sett upp og verður ekki farið nákvæmt í það hér en það er mikilvægt að kynna sér þau vel. Mestu máli skiptir að æfa sig að setja upp skipulögð svör og taka tímann á þeim svo það náist að svara spurningunum áður en tíminn rennur út. Fólk fær ýmist 15, 20 eða 30 sekúndur til að undirbúa svar og þarf svo að svara á 45-60 sekúndum.

Ritun

Skrifa þarf tvær ritgerðir í lokin. Fyrri ritgerðin er um málefni sem þú lest grein um og hlustar í kjölfarið á andstæð rök við greinina. Yfirleitt á þá að skrifa út frá punktunum í hlustuninni og bera þá saman við atriðin í greininni. Seinni ritgerðin á að fjalla um þína skoðun á einhverju málefni. Fyrir fyrri ritgerðina hefur maður 20 mínútur en seinni 30 mínútur. Seinni ritgerðin á því að vera lengri en sú fyrri, eða 300-350 orð, á meðan fyrri á að vera um 150-225 orð. Hér skiptir mestu að setja ritgerðirnar skipulega upp og svara umbeðnum spurningum á skýran hátt. Hægt er að setja þær upp á svipaðan hátt: inngangur, rök 1, rök 2, rök 3 og lokaorð þar sem þú ferð í stuttu máli aftur yfir rökin. Það getur verið sniðugt að undirbúa ákveðna uppbyggingu um hvernig byrja skal á rökunum því hér, eins og í öðrum hlutum prófsins, er tíminn takmarkaður. Yfirlesarar taka þó tillit til þess að um fyrstu drög er að ræða og nokkrar innsláttarvillur hafa ekki áhrif á einkunn.

Samantekt

Eins og áður hefur komið fram skiptir fyrst og fremst máli að kynna sér vel hvern hluta fyrir sig. Hægt er að nálgast fjöldann allan af æfingaspurningum á netinu og mikilvægt er að taka tímann á meðan svo hann komi ekki á óvart. Prófið er alltaf sett upp á mjög svipaðan hátt og ef þú mætir vel undirbúin/n þá eru allar áhyggjur óþarfar.

Kynntu þér Námslán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is