Í ágúst 2016 kynnti þáverandi ríkisstjórn fyriráætlanir um úrræðið fyrsta fasteign með það að leiðarljósi að auðvelda ungu fólki að kaupa sína fyrstu fasteign. Með úrræðinu var ungu fólki gefið færi á að nýta sparnað sem almennt er geymdur til eftirlaunaáranna og greiða inn á lán. Úrræðið var lögfest með lögum 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð en lögin tóku gildi þann 1. júlí 2017.

Úrræðið fyrsta fasteign
Frá 1. júlí 2017 hefur einstaklingum sem kaupa eða byggja sér íbúðarhúsnæði í fyrsta skipti annars vegar verið heimilt að fá útborguð viðbótariðgjöld sem greidd hafa verið til séreignarlífeyrissjóðs og hins vegar að greiða iðgjöld mánaðarlega inn á lán sem tryggð eru með veði í íbúðinni.

Unnt er að sækja um eftir að aðili hefur keypt sína fyrstu íbúð og undirritað kaupsamning eða þegar nýbygging hefur fengið fastanúmer í fasteignaskrá. Þegar þessi skilyrði eru uppfyllt er sótt um á www.skattur.is.

Eignir sem úrræðið nær til
Úrræðið nær eingöngu til kaupa á íbúð eða nýbyggingu en ekki kaupa á lóð, búseturétti eða endurbætur á fasteign. Skilyrði er að umsækjandi hafi ekki átt íbúðarhúsnæði áður og að hann afli sér a.m.k. 30% hlutar í slíkri eign.

Hámarksfjárhæð
Það er hámark á árlegri fjárhæð, bæði í krónum talið og sem hlutfall af launum. Hverjum einstaklingi er heimilt að ráðstafa 500.000 kr. fyrir hverja tólf mánuði á almanaksári. Samtals getur úttektartímabilið spannað tíu samfelld ár talið frá því þegar ráðstöfun hefst fyrst. Hámarksheimildin nemur því 5.000.000 kr. á tíu ára samfelldu tímabili.

Úrræði sem allir íbúðarkaupendur ættu að vera meðvitaðir um
Séreignargreiðslur eru skattlausar tekjur og því þarf ekki að greiða tekjuskatt upp á 36,94% til 46,24% sem annars þarf að greiða af tekjum áður en hægt er að greiða upphæðir inn á lán. Því margborgar sig að nýta sér úrræðið og greiða þannig lánið upp hraðar og lækka mánaðarlega greiðslubyrði.

Kynntu þér húsnæðislán Framtíðarinnar

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is