Vaxtalækkanir gefa einstaklingum tilefni til að fara yfir fasteignalánin sín og sjá hvort möguleiki sé á endurfjármögnun á hagstæðari kjörum.

Síðustu misseri hafa fréttir um lækkanir Seðlabankans á stýrivöxtum farið hátt og eru þeir nú í sögulegu lágmarki. Lánveitendur hafa margir hverjir fylgt þessum lækkunum eftir með lækkun vaxta á lánum.

Bæði verðtryggðir og óverðtryggðir vextir eru lægri nú en sést hefur lengi og því er tilefni fyrir einstaklinga með húsnæðislán til að staldra við og kanna hvort þeir eigi möguleika á að fjármagna fasteignir sínar með hagkvæmari hætti.

Samanburðarþjónustur eins og Aurbjörg og Herborg auðvelda samanburð á kjörum til muna. Á síðunum er unnt að bera saman vaxtakjör hjá lífeyrissjóðum og bönkum og kanna hvað hentar best.

Sem dæmi um tilvik þar sem endurfjármögnun getur borgað sig má nefna einstakling sem tók fasteignalán með föstum óverðtryggðum vöxtum að upphæð 25.000.000 kr. hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna seinnipart árs 2017. Á þeim tíma voru lánin veitt með 6,09% óverðtryggðum vöxtum. Sambærilegt lán hjá sama lánveitanda er í dag á 5,14% óverðtryggðum vöxtum. Kostnaðurinn við endurfjármögnun lánsins, að því gefnu að lánsupphæðin haldist eins og ekki sé þörf fyrir greiðslumat, er í dag 55.000 kr. lántökugjald. Í einfölduðu dæmi er vaxtakostnaðurinn af þessu láni á 12 mánaða tímabili m.v. 6,09% vexti 1.492.050 kr. Eftir endurfjármögnun verður árlegur vaxtakostnaður aftur á móti 1.259.300 kr. Þannig sparast 232.750 kr. árlega í vaxtakostnað með endurfjármögnuninni. Kostnaðurinn við lántökugjaldið er því fljótur að borga sig upp.

Einstaklingar sem upphaflega tóku húsnæðislán hjá banka, t.d. vegna þess að þörf var á hærra lánshlutfall en býðst hjá lífeyrissjóðum ættu að skoða hvort þeir eigi möguleika á að endurfjármagna lánin hjá lífeyrissjóði. Hækkandi fasteignamat, greiðslur séreignarlífeyrissparnaðar inn á höfuðstól láns og mánaðarlegar afborganir gætu verið þess valdandi að lánshlutfallið sem þörf er á sé lægra í dag en þegar lánið var tekið.

Ef þörf er fyrir viðbót við lán frá lífeyrissjóði getur viðbótarhúsnæðislán Framtíðarinnar brúað bilið. Viðbótarhúsnæðislánin  eru hugsuð sem lán til viðbótar við lán frá lífeyrissjóði þegar lánshlutfallið hjá lífeyrissjóðnum dugar ekki til. Í slíkum tilvikum getur verið hagstæðara fyrir einstaklinga að taka lán hjá lífeyrissjóði og Framtíðinni heldur en banka þar sem vegnu vextirnir eru í mörgum tilvikum lægri.

Fasteignalán geta virst flókin og því eru fleiri en færri sem eingöngu taka lán við kaup á fasteign og láta það síðan óhaggað þar til fasteignin er seld. Það er þó enginn ávinningur í því fyrir einstaklinga að greiða hærri vexti en þörf er á og því getur margborgað sig að vera vakandi fyrir nýjum möguleikum og grípa tækifærið ef möguleiki opnast á að endurfjármagna á hagstæðari kjörum.

Leave a Reply

Hafa samband: framtidin@framtidin.is